Útisigur hjá 4. flokki karla

Strákarnir í 4. flokki mættu Aftureldingu í Mosfellsbæ í gær. Selfoss var með yfirhöndina allan leikinn og sigraði að lokum 23-31 eftir að hafa leitt 10-16 í hálfleik.

Selfyssingar komust 1-4 yfir og höfðu yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn. Mest náðu þeir sjö marka forskoti í fyrri hálfleik en voru sex mörkum yfir í hálfleik. Afturelding minnkaði muninn í fjögur mörk í byrjun síðari hálfleiks en bætti þá Selfoss í og komst mest níu mörkum yfir. Lokatölur urðu sem áður segir 23-31.

Gaman var að sjá sóknarleik liðsins í leiknum þar sem góður taktur var í liðinu. Strákarnir spiluðu lengstum vel saman og þá alltaf upp á góð færi. Engu breytti þótt Afturelding tæki mann úr umferð því Selfyssingar bættu þá bara við forskotið. Varnarleikurinn var ágætur á köflum og til dæmis var gaman að sjá 3-2-1 vörnina virka vel inn á milli.

Næsti leikur Selfyssinga er gegn FH næstkomandi sunnudag. Þar er allt mögulegt, sérstaklega ef strákarnir ná upp sama vilja og hugarfari og hefur verið að undanförnu.