Vel heppnað Bónusmót að baki

Bónusmótið 2019
Bónusmótið 2019

Dagana 25.-28. apríl fór fram fjölmennasta íþróttamót á Suðurlandi og stærsta handboltamót á Íslandi þetta árið þegar Bónusmótið í handbolta fór fram á Selfossi.

Mótið er nú haldið í tólfta skipti og voru keppendur tæplega 1400 krakkar á aldrinum 8-10 ára. Búast má við að annar eins fjöldi af foreldrum og liðsstjórum hafi fylgt keppendum á sama tíma. 8. flokkur hóf leik á fimmtudeginum, síðan tók 7. flokkur við. Stelpumótið fór fram föstudag til laugardags og strákamótið laugardag til sunnudags. Keppt var bæði í Hleðsluhöllinni og íþróttahúsi Vallaskóla en þar gistu liðin einnig ásamt því að vera þar í mat. Á kvöldin voru haldnar vel heppnaðar kvöldvökur.

Yfir 100 sjálfboðaliðar komu að mótinu sem krafðist mikillar skipulagningar. Þökk sé öflugu foreldrastarfi deildarinnar og þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem tilbúnir eru að leggja hönd á plóg, þá gengur mótið alltaf mjög vel. Krakkarnir í 4. flokk sáu um sjoppu og fór allur ágóði af sjoppusölu í ferðasjóð.


Mynd: Það var leikgleði sem einkenndi krakkana um helgina.
Umf. Selfoss/ÁÞG